Auður Sigvaldadóttir í 10. bekk fær Íslenskuverðlaun unga fólksins
Auður Sigvaldadóttir fær Íslenskuverðlaun unga fólksins
47 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Hörpu í tilefni af Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Var það í nítjánda sinn sem verðlaunin voru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.
Úr Hagaskóla hlaut Auður Sigvaldadóttir nemandi í 10. bekk verðlaunin fyrir áhuga á lestri Íslendingasagna, góðan og djúpan skilning á þeim sem skilar sér í skapandi túlkun, góðum orðaforða og framúrskarandi ritfærni. Við óskum Auði til hamingju með verðlaunin.
Á undanförnum árum hafa á bilinu 35 – 50 nemendur hlotið verðlaunin á hverju ári. Þeim er boðið á hátíðlega athöfn ásamt fjölskyldum sínum, stjórnendum og kennurum skólanna og skóla- og frístundaráði. Dagskráin fólst í að veita nemendum viðurkenningu en einnig lék Harpa Þorvaldsdóttir frá Syngjandi skóla á píanó í upphafi hátíðar, Steinn Jóhannsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs sagði nokkur orð og kór Fossvogsskóla, undir stjórn Bjargar Þórsdóttur, söng lögin Sumargestur og Á íslensku má alltaf finna svar.
Verndari verðlaunanna frú Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd hátíðina að þessu sinni.