Nýr íslenskur söngleikur frumsýndur í Hagaskóla

Nýr íslenskur söngleikur frumsýndur í Hagaskóla
Mánudagskvöldið 31. mars frumsýndi hópur nemenda nýjan íslenskan söngleik, Gaggó Ve(r)st. Söngleikurinn er saminn af hópi nemenda við skólann, texti, tónlist og dansar. Sögusviðið er Hagaskóli, bæði í fortíð og nútíð, þar sem alls kyns uppákomur verða, en gleði og húmor er í öndvegi þrátt fyrir alvarlegan undirtón.
Í heildina hafa um 140 nemendur komið að uppsetningunni og hafa sýnt mikið frumkvæði, sköpunarkraft og elju í undirbúningi fyrir þessa uppsetningu. Frumsýningin í gær bar unglingum í Vesturbæ fagurt vitni þar sem öll sem eitt lögðu sig fram við að búa til fagmannlega, skemmtilega og áhrifamikla sýningu.
Undirbúningurinn hófst á síðasta skólaári þegar fyrstu hugmyndir að söguþræði voru búnar til. Síðan þá hefur handritshópurinn þróað hugmyndirnar áfram, fínpússað persónurnar og unnið í lagatextum. Leikhópurinn telur rúmlega 50 nemendur sem leika, syngja og dansa.
Hópurinn sem samdi tónlistina byrjaði líka sína undirbúningsvinnu í fyrra. Þegar lögin voru tilbúin var hljómsveitin sett saman og útsetningar hófust. Rúmlega 30 manna hljómsveit sér um að flytja tónlistina og hefur mikið verið lagt í að hún hljómi sem allra best á sýningum.
Leikstjóri er Arna Sif Ásgeirsdóttir leiklistarkennari í Hagaskóla og aðstoðarleikstjóri er Kristín Ýr Lyngdal. Benedikt H. Hermannsson hafði umsjón með tónsmíðahóp og tónlistarútsetningum og Gunnar Gunnsteinsson er hljómsveitarstjóri. List- og verkgreinakennarar voru nemendum innan handar við gerð leikmyndar og búninga.
Gaggó Ve(r)st verður sýndur á hverjum degi til 6. apríl. Nánari upplýsingar um sýningartíma og miðakaup eru á tix.is (https://tix.is/event/19260/gaggo-verst)



