Skólanámskrá

Í Hagaskóla leggjum við áherslu á að efla seiglu nemenda, námsvitund þeirra og trú á eigin getu.

Viðfangsefni nemenda í Hagaskóla eru fjölbreytt en kennslan er að mestu leyti skipulögð út frá eftirfarandi greinum: íslenska, stærðfræði, enska, danska, náttúrufræði, samfélagsfræði, íþróttir, upplýsingatækni, vellíðan, list – og verkgreinar. Mikið úrval valgreina í boði fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. 

Lögð er rík áhersla á að gæðakennsla fari fram með fjölbreyttum kennsluháttum og námi við hæfi. Skólinn vinnur nú að innleiðingu leiðsagnarnáms þar sem námsvitund, trú á eigin getu, vitsmunalegar áskoranir og seigla eru áberandi þættir. 

Sýn Hagaskóla

Í Hagaskóla er fjölbreytileikanum fagnað og skólastarfið einkennist af þeirri trú að allir geti náð árangri. 


Lögð er áhersla á vitsmunalegar áskoranir, skapandi hugsun og metnað.  


Í Hagaskóla er öflugt félagslíf með áherslu á gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi.  


Gagnkvæmt traust og virðing milli starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra samstarfsaðila skólans eru mikilvægar stoðir í farsælu samstarfi. 

 

Teikning af skólahúsnæði í laginu eins og bók

Lesskilningur og læsi

Í Hagaskóla erum við stöðugt að fást við tungumál; móðurmál og erlend mál. Þú heyrir ný hugtök, lærir nýjar sögur og þarft að setja hluti í samhengi og uppgötva merkingu orða. Við leggjum áherslu á að móta aðferðir til þess að skilja það sem við lesum.

 

Hugtakavinna fer fram í öllum greinum en tungumálakennsla í íslensku, dönsku og ensku vinnur markvisst að því að þjálfa lestur og skilning. Þú þarft að vera vakandi fyrir því að læra ný hugtök og leggja þig fram við að skilja.

 

Þú þjálfar læsi og skilning meðal annars með því að 
•    lesa bókmenntir
•    tala um námsefnið
•    skrifa um námsefnið
•    hlusta á efni sem tengist námsefninu

Teikning af tveimur krökkum að lesa bækur.

Tjáning

Hluti af því að þjálfa skilning og orðaforða er að nota hann í samtölum og virkri tjáningu. Þú þarft að geta orðað hugsanir þínar og fjallað um málefni líðandi stundar þannig að annað fólk skilji þig vel.

 

Við vinnum er með tjáningu í töluðu og rituðu máli í flestum greinum, með kynningum, ritgerðum og ritunarverkefnum, myndbandagerð og samræðum.

 

Þú þjálfar tjáningu og samræður meðal annars með því að:
•    flytja kynningar
•    gera myndbönd og hljóðupptökur
•    taka þátt í umræðum og hugsandi kennslurýmum
 

Hópur fólks að taka á móti nýjum starfsmanni.

Umhverfi og vísindi

Skilningur á tungumáli stærðfræði og náttúruvísinda getur nýst okkur í fjölmörgum verkefnum daglegs lífs.

 

Við leggjum áherslu á að nálgast viðfangsefni raungreina með virkum hætti þar sem þú  vinnur að þrautalausnum, stundum í einrúmi en oft með því að nota samræður og samvinnu til að efla hugtakaskilning og þjálfa ýmsar aðferðir.

 

Þú gerir alls konar verkefni eru svo sem tilraunir, mælingar, vettvangsathuganir, útreikningar og þjálfun á stærðfræðiaðferðum. 
 

Teikning af fólki að skoða ferli á vegg.

Fjölbreytt samfélag

Við viljum byggja upp einstaklinga með sterka sjálfsmynd og skilning á samfélaginu og fjölbreytileika þess. Þú munt vinna með þínar eigin tilfinningar og æfa þig í að lesa tilfinningar annarra. 

 

Á sama tíma munt þú efla skilning á samfélaginu og sögu þess, vinna með ýmsar samfélagslegar áskoranir og æfa þig í að setja þig í spor annarra.

Krakkar spila pógó

Sköpun, listir og hönnun

Við leggjum áherslu á skapandi vinnubrögð, listir og hönnun í öllu námi. Þú kynnist m.a. hönnunarhugsun, nýsköpun og skapandi verkefnaskilum. Sérstök áhersla er á list- og verkgreinar í 8. bekk. 


Annað hvert ár færðu tækifæri til þess að taka þátt í uppsetningu á söngleik þar sem þú getur eflt listrænu hliðina enn frekar, hvort sem er í leik, söng, hljóðfæraleik, búningagerð, förðun eða öðru. 

 

Teikning af konu að spila á selló.

Heilsuefling á líkama og sál

Í tímum í vellíðan er unnið með andlega heilsu nemenda, kynheilbrigði og forvarnir. Þar færð þú tækifæri til þess að huga að því sem þú getur gert til þess að rækta andlega heilsu þína.

 

Í íþróttum og sundi færðu tækifæri til þess að rækta líkamann og finna leiðir til þess að styrkja þig og efla líkamlega. 
 

Teikning af tveim manneskjum að gróðursetja tré.

Stafrænn veruleiki

Við leggjum áherslu á að nemendur læri að þekkja kosti og galla upplýsingatækninnar. Þú færð aðgang að stafrænu námsumhverfi og vinnur að því að efla stafræna borgaravitund. Þú þarft að leggja mat á upplýsingar sem þú finnur, nota tæknina til skapandi verkefnaskila og velta fyrir þér hlutverki samfélagsmiðla í sjálfsmynd okkar. 

Teikning af fólki að vinna saman við borð.

Veganestið

Eftir árin þín í Hagaskóla hefur þú meðal annars:

 

- notað tungumál, bæði móðurmál og erlend mál til þess að læra um heiminn og til þess að tjá þig 

 

- tekist á við ýmis flókin viðfangsefni og þjálfað heilann þinn í að finna lausnir, skilja ný orð og nýja hluti 

 

- æft þig í að vinna með öðrum, hlusta á skoðanir annarra og taka þátt í lýðræðislegum umræðum

 

- æft þig í að gefast ekki upp og að hafa trú á að þú getir leyst fjölbreytt verkefni, jafnvel þótt þú hafir ekki séð þau áður

 

- kynnst styrkleikum þínum, byggt upp færni í skilja betur fólkið í kringum þig og koma fram við aðra af virðingu 

 

- prófað ýmsar leiðir í skapandi og listrænni vinnu 

 

- lært að nýta upplýsingatækni til að sækja og miðla áreiðanlegum upplýsingum 

 

… og þannig stuðla árin þín í Hagaskóla að alhliða þroska sem býr þig undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun

Hópur fólks horfir ofan í fjársjóðskistu.

Greinahlutar

Íslenska

Traust kunnátta í móðurmáli er ein meginforsenda samskipta, miðlunar og menntunar. Lestur er mikilvægur þáttur í að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er ein af nauðsynlegum forsendum þátttöku í samfélaginu. 

Kennsla í íslensku leggur áherslu á að nemendur þrói með sér jákvætt viðhorf til hennar. Nemendur þurfa að öðlast trú á notagildi tungumálsins og því er mikilvægt að viðhalda fyrri þekkingu og leitast við að bæta við hana.  Nemendur þurfa að fá tækifæri til þess að láta reyna á tungumál sitt við lausn viðfangsefna, tjá hugsun sína og skoðanir, kynnast einkennum tungumálsins og mikilvægi þess í skólasamfélagi sem er vettvangur umræðu, samskipta, lestrar og ritunar.

Áhersla er lögð á fjölbreytta kennsluhætti og námsmat. Unnið er að innleiðingu leiðsagnarnáms í skólanum og mun það setja mark sitt á kennsluna og námsmatið. Hæfniviðmiðum í íslensku er skipt í nokkra flokka. Flokkarnir eru ekki einangraðir heldur hlutar af samofinni heild þar sem gjarnan er unnið þvert á flokka og jafnvel námsgreinar. Verkefni nemenda eru metin út frá hæfniviðmiðunum og færast inn á hæfnikort nemenda jafnóðum allan veturinn.

Markmið náms í íslensku er að gera nemendur að öflugri málnotendum, sem þekkja móðurmálið sitt og geta beitt því af öryggi. nám í Hagaskóla fyrst og fremst á eftirfarandi þáttum. Læsi og lesskilning eflum við m.a. með daglegum lestri ólíkra texta, lesfimiprófum og gagnvirkum lestri. Talað mál eflum við með framsögn af ýmsu tagi með reglulegum hætti. Lögð er áhersla á túlkun og gagnrýna hugsun á því sem er hlustað og horft á. Bókmenntagreining er m.a. efld með lestri, túlkun og beitingu bókmenntahugtaka ýmist í rituðu eða töluðu máli. Ritun eflum við fyrst og fremst  með ritun ólíkra texta sem ýmist eru skapandi eða falla að viðmiðum um viðeigandi málsnið. Lögð er áhersla á réttritun í allri ritun.  Mál og málnotkun er m.a. efld með fjölbreyttum málfræðiverkefnum, að kynnast einkennum allra orðflokka, beitingu málshátta og orðtaka og umræðum um tungumálið. Markmið málfræðikennslunnar er að gera nemendur viðræðuhæfa um mál og málnotkun, gera þá að betri málnotendum og glæða áhuga þeirra á tungumálinu.

Eftir þriggja ára nám í greininni er stefnt að því að nemandi geti:

  • Flutt mál sitt skýrt og áheyrilega með viðeigandi talhraða, tónfalli og fasi og tjáð hugmyndir sínar og skoðanir með fjölbreyttum leiðum. 
  • Hlustað á talað mál og nýtt sér fjölbreytta hljóð- og myndmiðla til upplýsingar og afþreyingar, tekið afstöðu til þess sem þar er birt og miðlað innihaldi þess. 
  • Lesið margvíslega texta af öryggi og í góðu flæði með aðferðum sem hæfa tilefni og aðstæðum. 
    Lagt mat á og glöggvað sig á tengslum efnisatriða og beitt ríkulegum orðaforða, þekkingu og reynslu til að mynda samhengi. 
  • Lesið, túlkað, metið og fjallað um fjölbreyttar bókmenntir og beitt algengum hugtökum í bókmenntafræði í umfjöllun um þær. 
    Lesið og skilið texta frá fyrri tímum, áttað sig á sögulegu samhengi þeirra og borið saman við eigin samtíð.
  • Lesið og fjallað um fjölbreytt ljóð frá ýmsum tímum. 
  • Beitt skipulegum og góðum vinnubrögðum við ritun og hefur á valdi sínu ólíkar leiðir til að miðla rituðu máli. 
  • Skipað efnisatriðum í samhengi og mótað málsgreinar og efnisgreinar á skýran hátt og valið textategund og málsnið sem hæfir viðkomandi verki, m.a. í skapandi ritun. 
  • Beitt stafsetningu og greinarmerkjasetningu af öryggi. 
  • Beitt þekkingu sinni á málfræði í umræðu um tungumálið, einkenni þess og margbreytileika og beitt því á fjölbreyttan hátt í ræðu og riti. 
  • Áttað sig á beygingarlegum og merkingarlegum einkennum orðflokka og gert sér grein fyrir hlutverki þeirra. 
  • Nýtt sér fjölbreytt hjálpartæki til að styðja við málnotkun sína. 
     

Stærðfræði

Markmið er að nemendur fái áskoranir við hæfi og verkefnin verði aðgengileg öllum en reyni líka á. Við höfum trú á getu nemenda og að með virkri þátttöku þeirra geti þeir náð árangri í stærðfræði. Mikilvægt er að nemendur öðlist trú á eigin getu og líði vel í stærðfræðitímum.

Lögð er áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir. Áhersla er á stærðfræðilegar samræður og samvinnu. Í samstarfi við bekkjarfélaga í verkefnavinnu sem reynir á fá nemendur svigrúm og öðlast verkfæri til að beita skapandi hugsun í námi.

Námsmat í stærðfræði byggist á hugmyndum leiðsagnarnáms og fer því fram með fjölbreyttum hætti. Formlegt námsmat fer til dæmis fram í gegnum munnleg próf, skrifleg próf, kynningar og skilaverkefni.

Matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla segir að við lok 10. bekkjar geti nemendur:

  • tjáð sig um stærðfræðileg efni og sett þau fram á skýran hátt
  • notað hugtök og táknmál stærðfræðinnar til að setja fram, tákna og leysa verkefni
  • nýtt ólík hjálpartæki til stærðfræðilegra verka, greint og túlkað stærðfræðileg líkön og kynnt niðurstöður sínar á skýran hátt
  • notað rauntölur og reiknað með ræðum tölum, greint samhengi milli talna í ólíkum talnamengjum
  • tekið þátt í að þróa lausnaleiðir, nýtt sér samhengi og tengsl reikniaðgerðanna og notað þá þekkingu við útreikninga og mat á þeim
  • rannsakað mynstur og alhæft um þau, leyst jöfnur, notað breytistærðir og lýst sambandi þeirra með stæðum og föllum
  • notað undirstöðuhugtök rúmfræðinnar á fjölbreyttan hátt
  • nýtt einslögun, hornareglur og hnitakerfi til að teikna, greina og skapa rúmfræðilega hluti
  • sett fram rúmfræðileg rök, mælt og reiknað lengd, flöt og rými og nýtt tölvur til þessara hluta
  • notað tölfræðihugtök til að skipuleggja, framkvæma og túlka tölfræðirannsóknir
  • framkvæmt og dregið ályktanir af tilraunum, þar sem líkur og tilviljun koma við sögu
  • notað líkindahugtök og talningar til að reikna og túlka líkur á atburðum.
     

Danska

Nám í dönsku miðast við hæfniviðmið Aðalnámskrá Grunnskóla, en þau skiptast í 7 flokka; hlustun, frásögn, lesskilningur, ritun, samskipti, menningarlæsi og námshæfni. Viðfangsefni eru aðlöguð árgöngum út frá hæfniviðmiðum. Þannig verður stöðug framvinda hæfni frá 8. upp í 10. bekk.

Unnið er jafnt og þétt með viðfangsefni hæfniviðmiðanna yfir önnina og þreyta nemendur margvísleg verkefni sem þjálfa þá hæfni.
Lögð er áhersla á að hafa fjölbreytni í kennsluháttum þar sem tekið er mið af mismunandi námsnálgun og stöðu nemenda. Unnið er jöfnum höndum með meginþætti tungumálsins; lestur, hlustun, talað mál og ritun. Námsefnið sækjum við víða t.d. bækur frá MMS, efni af netinu og dönskum fjölmiðlum. Nemendur eru þjálfaðir reglulega í að hlusta á mælt mál og vinna verkefni sem prófa skilning á málinu. Málfræði verður samþætt lestri og ritun og verður lögð áhersla á upprifjun helstu orðflokka og einkenni þeirra. Fjölbreytt ritunarverkefni fylgja lestri bóka og áhorfs á þætti og bíómynd. Nemendur kynnast dönsku samfélagi, menningu og siðum með aðstoð kvikmynda og tónlistar.

Við lok 8. bekkjar ætti nemandi að geta:

  • sagt frá sjálfum sér og áhugamálum í einföldu máli
  • þekkt og notað grunnorðaforða í tengslum við fjölskyldu, heimili og áhugamál
  • lesið stutta texta af ýmsu tagi sem tengjast viðfangsefni námsins
  • skrifað einfaldan texta um efni sem hann þekkir til
  • greint helstu orðflokka - nafnorð, sagnorð, lýsingarorð
  • tileinkað sér vönduð vinnubrögð í námi
  • horft og hlustað á barnaefni og skilið meginatriði


Við lok 9. bekkjar ætti nemandi að geta:

  • þekkt og notað orðaforða tengdan menningu, fjölmiðlum, tísku, tilfinningum, hegðun og upplifunum
  • lesið ýmsar gerðir af textum sem tengjast viðfangsefni námsins
  • skrifað texta um efni sem hann þekkir til
  • unnið áfram með helstu orðflokka - nafnorð, sagnorð, lýsingarorð
  • flutt stutta kynningu tengda viðfangsefni námsins sem hann hefur haft tækifæri til að undirbúa
  • fylgst með töluðu máli sem hann hlustar á, t.d. í formi sjónvarpsefnis eða hlustunaræfinga

Við lok 10. bekkjar ætti nemandi að geta…

  • þekkt og notað orðaforða tengdan framtíð, menntun og atvinnu
  • lesið stutta skáldsögu ætlaða ungu fólki og ýmsa stutta fræðitexta
  • þekkt öll helstu atriði tengd málfræði - nafnorð, sagnorð, lýsingarorð
  • sagt skýrt frá skoðunum sínum, svarað spurningum og flutt kynningar um viðfangsefni námsins
  • fylgst með og skilið ýmis konar sjónvarpsefni og annað hlustunarefni og unnið með í námi sínu
  • þekkt til helstu menningaratriða og gert sér grein fyrir fjölbreytileika þjóðarinnar
  • tamið sér góð vinnubrögð 
     

Enska

Eftir þriggja ára nám í Hagaskóla verða nemendur færir um að lesa og túlka fjölbreyttar gerðir texta; þar á meðal lesa nemendur skáldskap, ljóðlist, texta og texta sem innihalda hvers kyns staðreyndir og skoðanir. Nemendur tileinka sér tiltekin vinnubrögð og færni til að tjá sig skriflega, þ.á.m. að fylgja helstu málfræðireglum, reglum um uppsetningu texta og tilvísanir. Nemendur munu þurfa að sýna fram á hæfni til að skilja talaða ensku (hlustunaræfingar og próf), tjáð sig um fjölbreytt málefni og geta tekið þátt í innihaldsríkum samtölum. Nemendur öðlast þekkingu á fjölbreyttum mállýskum og ólíkum menningarheimum hins enskumælandi heims.  

Í lok 8. bekkjar munu nemendur geta:
•    Lesið fréttagreinar, fræðitexta og skáldsögur sem ætlaðir eru nemendum á efsta grunnskólastigi. Nemendur munu lesa skáldsöguna „Holes“ og horfa á kvikmyndina í kjölfarið; lögð verður áhersla á að nemendur tileinki sér hæfni til að vinna með alls konar gerðir af textum, draga ályktanir og mynda eigin skoðanir á innihaldi textanna.
•    Skrifað máls- og efnisgreinar samkvæmt rithefðum, tjáð skoðanir sínar og skrifað smásögur frá grunni; skrifað samkvæmt enskri setningabyggingu, fylgja reglum um kommur og punkta í málsgreinum, átta sig á samsvörun milli efnis og sagna og greint á milli orða sem er algengt að ruglað sé saman.
•    Talað nægilega hátt og skýrt, flutt einhvers konar kynningu fyrir framan áhorfendur í eina mínútu um efni sem þeim er kunnugt um
•    Fylgst vel með í kennslustundum og fylgt innlögnum og leiðbeiningum kennara.
•    Átt í innihaldsríkum samskiptum við kennara og samnemendur, tekið þátt í allskonar munnlegum verkefnum (t.d. viðtöl eða speedfriending) og þreytt munnlegt próf.
•    Tileinkað sér vönduð vinnubrögð í námi og gert grein fyrir uppruna upplýsinga sem þeir afla sér.

Í lok 9. bekkjar munu nemendur geta:

•    Lesið fréttagreinar, fræðitexta og skáldsögur sem eru ætlaðar efsta stigi grunnskóla; lesið verður skáldsöguna „Ugly“ á ensku og horft á kvikmyndina „Wonder“ í kjölfarið; lögð verður áhersla á að nemendur tileinki sér hæfni til að vinna með alls konar gerðir af textum, rýna í efnisgreinar, gera útdrátt á efnislegu innihaldi textans og greina þema í texta.
•    Skrifað málsgreinar sem tjá skoðanir og eru studdar með heimildum, og skrifað smásögur um úthlutað efni; læra málsgreinaruppbyggingu og greinarmerki á borð við tvípunkt, semikommu, samræmi í tíðbeygingu sagna (fortíð vs. nútíð) og nokkuð krefjandi orð sem er algengt að ruglað sé saman.
•    Talað nægilega hátt og skýrt, flutt einhvers konar kynningu fyrir framan áhorfendur í þrjár mínútur um efni sem þeim er kunnugt um.
•    Hlustað og skilið efni sem fjallar um hvers kyns almannahagsmuni (e. common interest).
•    Átt í innihaldsríkum rökræðum við kennara og samnemendur í gegnum viðtöl og regluleg samtöl við jafningja. Þreytt munnleg próf sem reyna á rökhæfni. 
•    Tileinkað sér vönduð vinnubrögð við að greina uppruna heimilda og umorða nýfengnar upplýsingar.

Í lok 10. bekkjar munu nemendur geta:

•    Lesið fréttagreinar, fræðitexta og skáldsögur sem eru ætlaðar efsta stigi grunnskóla, lesið verður skáldsöguna „Walk Two Moons“ eða „The Wave“; lögð verður áhersla á að nemendur tileinki sér hæfni til að vinna með alls konar gerðir af textum, vinna með lykilsetningar (e. central idea)  og vitna í áreiðanlegar heimildir.
•    Skrifað greinargóða og fræðilega ritgerð á ensku, skrifað stutta skáldsögu á ensku; fylgja hefðbundinni uppbyggingu í ritgerðum, temja sér rétta notkun greinarmerkja og greina á milli flókinna orða sem algengt er að rugla saman.
•    Flutt reiprennandi kynningu þar sem unnið er með nokkuð flókin hugtök og hugmyndir, nemendur þurfa að geta sagt frá á upplýsandi hátt og vera tilbúnir til að bregðast við spurningum.
•    Hlustað og skilið efni sem fjallar um akademískar vangaveltur er varðar enska tungumálið.
•    Átt í innihaldsríkum rökræðum og samskiptum þar sem tekið er tillit til allra þátttakenda, bæði í gegnum hvers kyns hópavinnu og munnleg próf.
•    Tileinkað sér framúrskarandi vinnubrögð í heimildavinnu; vitnað í áreiðanlegar heimildir eftir kúnstarinnar reglum.
Menningarlæsi: 
•    Geta greint fyrir fjölbreyttum og víðtækum mállýskum í ensku.
•    Geta gert grein fyrir útbreiðslu enska tungumálsins í sögulegu samhengi.
•    Áttað sig á sögu enskunnar og hvernig hún hefur mótað hinn enskumælandi heim.
•    Tekið meðvitaða ákvörðun um að tileinka sér ritreglur ákveðinna mállýska (enska, bandaríska, ástralska o.s.frv.).
 

Náttúrufræði

Í Hagaskóla stuðlum við að þekkingu, virðingu og ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart náttúru, tækni, samfélagi og umhverfi. Þannig öðlast þeir þá hæfni sem til þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir í málefnum er varða tengsl fólks og náttúru.

Þetta er gert með bóklegunámi í bland við verklegar æfingar og vettvangsrannsóknir í nærumhverfi. Nám þeirra er metið með símati í anda leiðsagnarnáms.
Í 8. bekk læra nemendur undirstöðuatriði efnafræðinnar og kynnumst líffræðilegum fjölbreytileika og flokkunarfræði lífvera.


Í 9. bekk læra nemendur eðli rafmagns og segulmagns, eðli ljóss, hljóðs og líffræði mannsins.


í 10 bekk læra nemendur erfðafræði og þróunarfræði. Einnig læra þeir kjarneðlisfræði og undirstöður aflfræði og stjörnufræði

 

Við lok skólagöngu í Hagaskóla eiga nemendur að geta:

  • beitt algengustu hugtökum náttúruvísinda
  • lesið, greint, túlkað og tjáð sig um texta og myndefni tengt náttúruvísindum og tækni
  • framkvæmt athuganir og tilraunir, skráð niðurstöður, dregið ályktanir af gögnum og gefið ólíkar skýringar með því að nota ólík sjónarhorn
  • metið og greint upplýsingar sem tengjast náttúruvísindum og gert grein fyrir áhrifum náttúruvísinda á þekkingarsköpun, tækniþróun og daglegt líf fólks. 
  • lýst hringrás efna og orku í náttúrunni og þörfum lífvera í ólíkum vistkerfum
  • gert grein fyrir áhrifum mannsins á hringrásir og ferla í náttúrunni
  • greint, útskýrt og rætt á gagnrýninn hátt málefni sem tengjast umhverfinu, náttúruvernd og loftslagsbreytingum og gert grein fyrir áhrifum þeirra á lífsgæði og náttúru
  • rætt eigin lífssýn og ábyrgð innan samfélagsins og skipulagt aðgerðir til úrbóta
  • aflað sér upplýsinga um einkenni lífvera og þróun og gert grein fyrir þeim
  • gert grein fyrir uppbyggingu efna og ólíkum eiginleikum þeirra
  • gert grein fyrir ólíkum orkuformum og rætt á gagnrýninn hátt um nýtingu mannsins á orku
  • framkvæmt athuganir útfrá rannsóknarspurningu og skrifað gagnrýna niðurstöðu
  • sagt frá uppbyggingu lands og þeim náttúruferlum sem hafa áhrif þar 
  • útskýrt stöðu Jarðar, áhrif tunglsins og uppbyggingu sólkerfisins
  • fjallað um helstu fyrirbæri alheimsins
     

Samfélagsfræði

Samfélagsgreinar fjalla um nemendurna sjálfa, sjálfsþekkingu og tengslamyndun, nemendurna sem hluta af samfélagi og menningu í víðu samhengi.


Samfélagsgreinar eru grundvöllur þess að nemendur fái kennslu og þjálfun í sjálfsþekkingu, jafnrétti, þeim reglum og gildum sem eiga við í lýðræðislegu samfélagi og hvaða áhrif og ábyrgð hver einstaklingur getur haft á eigið líf og samfélagið sem hann býr í.


Samfélagsgreinar eru vettvangur náms um sögulega atburði, að skilja í hverju farsælt líf á Jörðinni felst, að bregðast við áskorunum í umhverfinu og að efla skilning nemenda á réttlæti, frelsi, vináttu og virðingu.


Í samfélagsgreinum er fjölbreytt námsmat í samráði við nemendur. Nemendur fá gjarnan val um skil út frá áhuga og styrkleikum.


AÐ LOKNU NÁMI Í HAGASKÓLA
Er lagt upp með að nemendur geti...


  • túlkað og hagnýtt upplýsingar um samfélagsmálefni á margvíslegu formi og myndað sér skoðanir
  • útskýrt og beitt hugtökum samfélagsgreina og á skipulegan og fjölbreyttan hátt fjallað um samfélagsleg og siðferðileg málefni frá mismunandi sjónarhornum
  • tekið virkan og jákvæðan þátt í gagnrýninni samræðu og lýðræðislegu samstarfi
  • á sjálfstæðan hátt greint og fjallað um áhrif margvíslegra þátta á mótun sjálfsmyndar, hugarfars, samskipta og hegðunar
  • útskýrt hlutverk siðferðis, trúar og lífsskoðana á líf einstaklinga og greint ólíkar birtingarmyndir þessara þátta og áhrif í samfélögum
  • rökrætt stöðu einstaklinga sem þátttakenda í samfélaginu, réttindi, skyldur og getu til aðgerða
  • útskýrt gildi mannréttinda og lýðræðis
  • fjallað um stjórnkerfið og áhrif þess á líf einstaklinga
  • fjallað um sögulega viðburði nær og fjær, orsakasamhengi og áhrif þeirra frá ólíkum sjónarhornum
  • borið saman ólíka menningarheima út frá aðstæðum og lífi fólks og nýtt í því skyni fjölbreyttar upplýsingar á kortum
  • útskýrt áhrif mannkyns á Jörðina og þýðingu sjálfbærrar þróunar fyrir umhverfi, samfélag og efnahagslíf
     

Listgreinar

Menntun í listgreinum á að stuðla að því að nemendur öðlist hæfni til að:

  • takast á við ófyrirséða framtíð á skapandi hátt
  • sjá ný mynstur og hugsa í lausnum
  • þroska persónulega tjáningu og smekk

Leiklist

Helstu áherslur í leiklist er að stíga út fyrir þægindarammann og þannig efla sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda. Mikil áhersla er lögð á samvinnu í litlum og stórum hópum. í upphafi er lögð sérstök áhersla á að þétta hópinn saman og mynda traust. Traust er lykilatriði í því að geta notið sín í leiklist og þora. Eftir því sem líður á önnina takast nemendur svo á við erfiðari og flóknari verkefni. Nemendur læra leiklist með samvinnu, æfingum, leikjum og spuna. 

Helstu viðfangsefni:

  • Traust og samvinna
  • Líkamstjáning og látbragðsleikur
  • Hvar, hver og af hverju 
  • Karaktersköpun
  • Einbeiting og athygli
  • Framsögn og raddbeiting
  • Að hlusta og bregðast við
  • Spuni

Tónlist

Tónlistarkennsla eflir næmi nemenda og þekkingu á frumþáttum tónlistar; tónhæð, tónlengd, blæ, styrk, hljómum, túlkun og formi, til þess að þeir geti myndað sér skoðun á ólíkum stíl tónlistar, geti gert sér grein fyrir gildi hennar í eigin menningu og lífi og notið hennar á uppbyggilegan hátt. 

Tónlistarsköpun er  meginviðgfangsefni nemenda. Unnið er markvisst að því að kynnast sköpunarferlinu og læra að vera meðvitaður um það á meðan vinnan fer fram. Í kennslustundum fá nemendur kynningar á ýmsum menningarkimum í fortíð og í nútímanum sem svo er tengt þeirra eigin tónlistarsköpun. 

Að því loknu skoðar hver hópur hvaða málefni dagsins í dag er hægt að fjalla um með því að semja tónlist og breyta því sínu eigin samfélagi til hins betra. Á sama hátt verður unnið með kvikmyndatónlist, samspil sjálf og aukasjálfs í tónlist, að segja sögur í gegnum tónlist, auk þess sem rýnt verður í tónlist fjölmargra listamanna á borð við Aldous Harding, Ninu Simone, Tyler the creator, Moondog, Steve Reich ofl. 

Umhverfi skólans er rannsakað út frá því hvernig það hljómar og unner á skapandi hátt með upptökur og upplifun af hljóðum umhverfisins. 

Sjónlistir

Í sjónlistum er lögð áhersla á sköpun og það að upplifa listir sem órjúfanlegan þátt í mannlegri tilveru. Rýnt er í hugtakið listsköpun, hvað það felur í sér og mikilvægi þess að virkja skapandi hugsun í hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. Áherslan er lögð á ferlið frá hugmynd til verkloka. 

Nemendur eru hvattir til að gera tilraunir, prófa nýjar aðferðir og þróa áfram það sem þeir eru ánægðir með. Nemendur efla myndlæsi og hæfileikann til þess að skilja og túlka það sem fyrir augu ber. Þetta er kennt með samræðum, spurningum og tilraunum sem leiða nemandann að lokaafurð. Markmiðið er að efla víðsýni, stuðla að gagnrýnni hugsun og æfa nemendur í að færa rök fyrir máli sínu.  

Helstu viðfangsefnin:

  • Mesta áherslan er á myndlist og myndsköpun, kynningar á listamönnum, stíla stefnur. Snert er á kvikmyndagerð, ljósmyndun, byggingarlist og nytjalist á borð við iðnhönnun, grafíska hönnun, fatahönnun, innanhúsarkítektúr og skreytilist. 
  • Nemendur fara í eina safnaferð á önninni og lagt er upp með að taka þátt í Barnamenningarhátíð Reykjavíkurborgar sem haldin er einu sinni á ári og nemendur þá fengið tækifæri til að sýna verk sín á listasafni.
  • Nemendur vinna ferilmöppu þar sem þeir safna verkum sínum og leggja svo sjálfir mat á vinnu sína bæði jafn óðum og í lok annar.

Við lok 10.bekkjar getur nemandi í sjónlistum

  • valið milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla og tækni
  • sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur í sér upplýsingaöflun tilraunir og samtal
  • skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðan á eigin ímyndunarafli og/eða rannsókn, myndrænt og/eða í texta.
  • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu og gagnrýni á samfélagið
  • gagnrýnt af þekkingu sanngirni og virðingu eigin verk og annara bæði einn og í samvinnu
  • greint hvernig sjónrænt áreiti daglegs lífs hefur áhrif á líf okkar og gildismat, bæði í samfélaginu og á heimsvísu 
  • notað orðaforða og hugtök frumþátta og lögmála myndlistar til að tjá skoðanir sínar á myndlist og hönnun og fært rök fyrr þeim út frá eigin gildismati
  • greint hvernig samtímalist fæst við álitamálefni daglegs lífs með fjölbreyttum aðferðum nálgunum sem oft fela í sér samþættingu listgreina
  • gert grein fyrir margvíslegum tilgangi  myndlistar og hönnunar og sett hann í fjölbreytt samhengi
  • greint, borið saman og lýst ýmsum stílum og stefnum í myndlist og hönnun og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð, bæði hér á landi og erlendis

Verkgreinar

Textílmennt

Nám í textílmennt miðast við hæfniviðmið í Aðalnámskrá grunnskóla sem skiptist í þrjá flokka; eftirfarandi eru hæfniviðmið fyrir 8. bekk.

Handverk, aðferðir og tækni:

  • beitt fjölbreyttum aðferðum og áhöldum greinarinnar við formun textílafurða,
  • unnið með snið og uppskriftir, tekið mál, áætlað stærðir og efnisþörf.

Sköpun, hönnun og útfærsla:

  • beitt skapandi og gagnrýnni hugsun í hönnun og textílvinnu,
  • skreytt textílafurð á skapandi og persónulegan hátt,
  • lagt mat á eigin vinnubrögð, sagt frá góðu handbragði, formi og hönnun og notað til þess viðeigandi hugtök.

Menning og umhverfi:

  • fjallað um helstu tákn og merkingar vefjarefna,
  • sagt frá vinnslu textílefna við mismunandi aðstæður og sett í samhengi við sjálfbærni og umhverfisvernd.

Undir handverk, aðferðir og tækni falla hæfniviðmið sem stuðla að þekkingu á fjölbreyttum efnum og aðferðum greinarinnar, auk þess að efla verkfærni og stuðla að notkun viðeigandi tækja. Flokkurinn sköpun, hönnun og útfærsla nær yfir þætti sem lúta að sköpun, hönnunar- og hugmyndavinnu, skilningi á vinnuferli og að nemendur geri sér grein fyrir gildi handverks. Menning og umhverfi er þriðji flokkurinn og undir þann þátt falla hæfniviðmið sem miða að því að efla skilning nemenda á menningu og umhverfi í tengslum við textílheiminn. Lögð er áhersla á umhverfisvernd og umhverfisvitund.

Helstu viðfangsefni

  • tölvutaska: í því felst kynning á textíl,  einföld sniðagerð, klippimynd úr pappír, æfing á saumavél, endurgerð klippimyndar í efni, sauma saman efnisbúta, sauma tösku og frágangur
  • útsaumur: í því felst, kynning á þráð-listamönnum, útsaumsprufa með fjórum sporum, ritunarverkefni um þráðlistamann, skissa, útsaumur á pappír og efni, umhverfishetja saumuð út á pappír 

Metið verður hvernig nemendur tileinka sér vinnubrögð frá þróun og úrvinnslu hugmynda, frumleika, sjálfstæði og til framfara.

Hönnun og smíði

Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti. Nemendur kynnist því hvað hönnun og undirgreinar hennar eru. Þeir þjálfast í vinnubrögðum við hagnýta og skapandi hugmyndavinnu. Þeir kynnast undirstöðuatriðum alhliða hugmyndavinnu, ákveðnum aðferðum til þess að virkja hugmyndir sínar og þróa. Þeir kynnast hönnuðum og myndlistarmönnum sem nota tré í sinni vinnu. Þeir fá þjálfun í að þróa hugmyndir sínar, vinna sjálfstætt og í hóp, setja fram hugmyndir, meta og ræða á uppbyggilegan hátt eigin verk og annarra. Lögð er áhersla á að bera virðingu fyrir hugmyndum annarra.

Nemendur þreyta margvísleg verkefni í smíðastofunni og læra að vinna eftir vinnuferli frá hugmynd til lokaafurðar og geta greint frá mismunandi nálgun við vinnuna.

Þeir læra að sýna ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæðinu og að notað verkfæri á réttan hátt. Lögð er áhersla á að nemendur geti farið eftir leiðbeiningum kennara og sýnt sjálfstæði í vinnubrögðum. Geti útskýrt hvaða vinnustellingar henta við vinnu sína og valið réttan öryggisbúnað sem við á hverju sinni.

Helstu viðfangsefni

  • Hvað er hönnun?
  • Ýmsar aðferðir í hugmyndavinnu. 
  • Unnin eru bæði hópa- og einstaklingsverkefni
  • Ýmis smíðaverkefni unnin út frá hugmyndvinnu nemandans.
  • Verkefni með áherslu á samsetningar.

Við lok 10.bekkjar á nemandi að geta

  • tekið þátt í samvinnu með sameiginlegt markmið hópsins að leiðarljósi.
  • beitt þeirri tækni sem námsgreinin býr yfir á sjálfstæðan hátt.
  • tjáð sig um verkefni sín með því að nota hugtök sem greinin býr yfir.
  • geti metið eigið verk og annarra og rökstutt álit sitt með þeim hugtökum sem viðkomandi námsgrein býr yfir. 
  • sýnt frumkvæði í góðri umgengni og frágangi á vinnusvæði.
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði.
  • valið og notað á réttan hátt helstu verkfæri og mælitæki.
  • útskýrt réttar vinnustellingar og valið viðeigandi hlífðarbúnað.
  • framkvæmt einfalda samsetningu.

Vellíðan

Sjálfsrækt, vellíðan og andleg heilsa eru megin áhersluþættir VEL. Sjálfsþekking og sjálfssátt eru mikilvæg verkfæri nemenda til þess að takast á við daglegt líf. Þá er vellíðan ein af forsendum jákvæðs viðhorfs til lífsins og almennrar velgengni í námi og starfi. Rauður þráður VEL í 10. bekk verður DAM- díalektísk atferlismeðferð þar sem unnið er með núvitund, tilfinningastjórnun, streituþol og samskiptafærni. Þá verður, bæði í 8. og 10. bekk, í gegnum fyrirlestra, verkefna vinnu og umræður einnig unnið með hópefli, gildi, námstækni, styrkleika, geðrækt, einelti, hinsegin málefni, kynfræðslu og forvarnir.

 

8.bekkur

Viðfangsefni Viðmið um árangur
Hópefli Góður bekkjarandi, skapa traust innan bekkjarins. 
Núvitund Kannist við ýmsar núvitundar aðferðir, geti beint athygli að líðandi stund og skilji ávinning þess
Sjálfsmynd Tjáð hver hann er í augum sjálfs síns og annarra
Samskipti Gert sér grein fyrir mikilvægi færni í samskiptum, áttt í góðum samskiptum sem einkennast af virðingu
Vinátta Geri sér grein fyrir muni á heilbrigðum og óheilbrigðum samskiptum, geti sett mörk og virt mörk annarra, þekki gildi vináttu
Tilfinningar Getur lýst margbreytileika tilfinninga og bent á víxlverkun tilfinninga, hugsunar, hegðunar og samskipta
Einelti Gert sér grein fyrir helstu einkennum eineltis, viðbrögðum og forvörnum. Gert sér grein fyrir mikilvægi sjálfsábyrgðar og umburðarlyndis.
Kynfræðsla Þekki hugtök á borð við mörk, samþykki, samskipti, nánd, höfnun, hópþrýstingur, kynþroskaskeið fólks, kynheilbrigði, getnaðarvarnir, 
Hinsegin fræðsla Sé meðvitaður um hinseginleika, þekki fjölbreytt hugtök og beri virðingu fyrir ólíkum hópum fólks
Námstækni Geti nýtt sér aðferðir til sjálfstæðra og vandaðra vinnubragða
Gildi Rökstutt gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats, sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund

 

10. bekkur

Viðfangsefni Viðmið um árangur
Hópefli Góður bekkjarandi, skapa traust innan bekkjarins. 
DAM (núvitund, tilfinningastjórnun, streituþol, samskiptafærni)

vegið og metið skoðanir og upplýsingar, brugðist við þeim á fordómalausan og réttsýnan hátt,

 

sýnt sjálfsaga, sjálfstraust og virðingu í margvíslegum samskiptum og samstarfi við ólíka einstaklinga,

Kynfræðsla Kunni góð skil  á kynferðislegri hegðun, mörkum, kynlífi og kynheilbrigði og mannslíkamanum. Þekki munin á heilbrigðum og óheilbrigðum samskiptum, geti gert sér grein fyrir ofbeldi, völdum og valdaójafnvægi og viðeigandi úrræðum.
Kynjafræði beitt hugtökunum kyn, kynhneigð og kynhlutverk og útskýrt hvaða hlutverki þau þjóna í kyngervi einstaklinga og sjálfsmynd,
Hinsegin fræðsla Kunni góð skil á ýmsum hugtökum á borð við jaðarsetningu, fordóma og mismunun. Þ þekki fjölbreytt hugtök innan hinseginleikans og beri virðingu fyrir ólíkum hópum fólks
Einelti Gert sér grein fyrir helstu einkennum eineltis, viðbrögðum og forvörnum. Gert sér grein fyrir mikilvægi sjálfsábyrgðar og umburðarlyndis.
Fordómar Greint jákvæð og neikvæð áreiti og staðist þrýsting, sem stefnir heilsu og velferð fólks í voða
Forréttindi Sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum,
Námstækni Geti nýtt sér aðferðir til sjálfstæðra og vandaðra vinnubragða

Íþróttir

Vantar texta