Nám og kennsla
Grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna eftir aðalnámsskrá grunnskóla með Menntastefnu Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.
Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.
Nám í Hagaskóla
Viðfangsefni nemenda í Hagaskóla eru fjölbreytt en kennslan er að mestu leyti skipulögð út frá eftirfarandi bóklegum greinum öll þrjú árin: íslenska, stærðfræði, enska, danska, náttúrufræði, samfélagsfræði og vellíðan. Að auki eru list- og verkgreinar kenndar í 8. bekk og mikið úrval valgreina í boði fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.
Lögð er rík áhersla á að gæðakennsla fari fram með fjölbreyttum kennsluháttum og námi við hæfi fyrir alla nemendur.
Skólanámskrá
Hlutverk skólanámskrár er að lýsa því námi sem fram fer í Hagaskóla.
Kennsluáætlanir
Kennsluáætlanir allra greina eru aðgengilegar nemendum og foreldrum á Mentor.
Í kennsluáætlunum eru hæfniviðmið náms skilgreind, námsefni og viðfangsefnum lýst og samsetning námsmats útskýrð.
Upplýsingar um skólastarfið
Mentor er upplýsingakerfi fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans. Forsjáraðilar og nemendur fá aðgangsorð að Mentor. Á fjölskyldusíðunni sjá forsjáraðilar meðal annars:
- stundatöflur
- kennsluáætlanir
- heimavinnu
- niðurstöður námsmats
- skólasókn
Nemendur fá úthlutað sér lykilorði og með því hafa þeir aðgang að nemendasíðum.
Google Classroom
Allir nemendur fá Chromebook tölvu í skólanum og hafa aðgang að upplýsingum um nám, námsefni og tilkynningum í gegnum Google Classroom.
Nemendur skila flestum verkefnum til kennara í gegnum Classroom og hafa þar meðal annars aðgang að endurgjöf frá kennurum þar sem það á við.
Foreldrar geta fengið aðgang að hluta þessara upplýsinga og fá tölvupóst með hlekk á Classroom barna sinna.
Námsmat
Í Hagaskóla er leitast við að hafa námsmat þannig að það sé leiðbeinandi fyrir nemandann og að hann sjái á hverjum tíma hvar hann stendur í námi.
Einkunnir nemenda byggir á mati á fjölbreyttum verkefnum sem nemendur vinna jafnt og þétt yfir skólaárið. Nánari lýsingar á námsmati í hverri grein er að finna í kennsluáætlunum sem birtar eru á Mentor.
Kennsluhættir
Hagaskóli vinnur nú að innleiðingu leiðsagnarnáms. Aðalmarkmið þeirrar innleiðingar er að efla námsvitund nemenda, auka seiglu og efla vaxandi hugarfar nemenda.
Kennslan miðar að því að nemendur öðlist hæfni og þekkingu sem stuðlar að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið leggur grunn að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfar hæfni þeirra til samstarfs við aðra og til áframhaldandi náms og starfa í framtíðinni
Viðmið um skólasókn
Mikil áhersla er lögð á stundvísi nemenda í skólanum. Öll börn og ungmenni á aldrinum 6 til 16 ára eru skólaskyld og bera foreldrar/forsjáraðilar ábyrgð á því að börnin innritist í grunnskóla, sæki skólann og stundi þar nám.
Ef misbrestur verður á skólasókn ber foreldrum/forsjáraðilum og skólanum að bregðast við. Til þess að þau viðbrögð verði sem árangursríkust hafa grunnskólarnir í Reykjavík sett sér samræmd viðmið og reglur sem þeir vinna eftir.