Námsmat í Hagaskóla
Í Hagaskóla er leitast við að hafa námsmat leiðbeinandi og hvetjandi fyrir nemandann þannig að hann sjái á hverjum tíma hvar hann stendur í námi. Um leið er lögð áhersla á það að nemendur geti sýnt þekkingu sína og færni með fjölbreyttum hætti og einkunnir endurspegli þá vinnu sem nemandinn innir af hendi jafnt og þétt yfir skólaárið. Námsmatið þarf að veita nemendum, foreldrum og kennurum góðar upplýsingar um námsgengi og framfarir.
Leiðsagnarnám
Í leiðsegjandi námsmati er lögð mikil áhersla á það að nemendur viti ávallt hver markmið námsins eru, til hvers er ætlast af þeim, hvað þarf til þess að ná markmiðum og taka jafnvel þátt í að meta eigið vinnuframlag. Námsmatið þarf að vera fjölbreytt, áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt og fara fram jafnt og þétt yfir námstímann.
Lokaeinkunn
Í kennsluáætlunum eru tilgreindir þeir námsmatsþættir sem lokanámsmatið byggir á. Það geta verið verkefni, kynningar, vinnulag og svo framvegis. Nemendur fá bókstafseinkunn fyrir námsmatsþætti (verkefni) sem lokaeinkunn byggist á.
Bókstarfseinkunnir eru ekki línulegur kvarði heldur flokkun þar sem B þýðir að nemandi hafi sýnt fram á hæfni, C þýðir að nemandi þarfnist þjálfunar til að sýna fram á hæfni og D þýðir að nemandi hafi ekki sýnt fram á hæfni. Nemendur sem ekki ná að sýna fram á hæfni fá ávallt skráða umsögn um verkefnið frá kennara með sinni einkunn. A þýðir síðan að nemandi hafi sýt framúrskarandi hæfni.