Skólinn

Teiknuð mynd af börnum að lesa og skrifa við borð í skólastofu.

Hagaskóli tók til starfa í hluta núverandi húsnæðis 1. október 1958. Skólahverfi Hagaskóla er allur Vesturbærinn, frá flugvelli og Lækjargötu út að Seltjarnarnesi. Auk heimafólks hafa jafnan verið allmargir nemendur utan hverfis í skólanum.

Hagaskóli er unglingaskóli fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk. Hingað koma nemendur úr þremur skólum, Grandaskóla, Melaskóla og Vesturbæjarskóla. Árgangar eru því nokkuð fjölmennir og skólaárið 2025- 2026 verða um 640 nemendur í skólanum. Þessi fjöldi gerir skólanum kleift að bjóða upp á margvíslegt val í námi. 

Félagsmiðstöðin Frosti er fyrir nemendur skólans og býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir unglinga.

Stjórnendur í Hagaskóla

Skólastjóri er Ómar Örn Magnússon

Aðstoðarskólastjóri er Sigríður Nanna Heimisdóttir

Deildarstjóri nemendaþjónustu er Áslaug Pálsdóttir

Deildarstjóri mannauðs og rekstrar er Guðrún Inga Tómasdóttir

Skólastarfið

Skólanámskrá

Viltu vita meira um hugmyndafræði og daglegt starf Hagaskóla? Í skólanámskrá finnur þú ítarlegar upplýsingar um hugmyndafræðilegar áherslur og stefnu skólans í námi og starfi. 

Skólareglur

Skólareglur Hagaskóla eru sem hér segir: 

1. Við berum ábyrgð á eigin hegðun og framkomu 
Í Hagaskóla njótum við frelsis til athafna sem ekki skaða okkur sjálf né samferðamenn okkar. Við temjum okkur ábyrgðarfulla hegðun þar sem við rækjum skyldur okkar og temjum okkur sjálfsstjórn.

2. Við sýnum öllum virðingu og virðum okkar mörk og annarra
Samskipti í skólanum skulu byggjast á vináttu, virðingu og jafnrétti. Við sýnum öðrum samkennd og umburðarlyndi og tökum tillit til allra.

3. Við göngum snyrtilega um og berum virðingu fyrir umhverfi okkar 
Við neytum matar og drykkjar aðeins í matsal eða á þar til gerðum svæðum. Við göngum frá matarleifum, umbúðum og öðru rusli á viðeigandi hátt. Matur og drykkur er ekki leyfður í kennslustofum. 

4. Við mætum stundvíslega í skólann og stundum nám af kappi 
Ein meginforsenda árangurs í námi er áhugi og ástundun. Góð ástundun er ávísun á að nemandi nái sínu besta úr skólagöngu sinni. Stundvísi er dyggð sem leiðir til farsældar í námi og starfi. 

5. Við lifum heilbrigðu lífi 
Hagaskóli er heilsueflandi skóli sem styður nemendur til heilbrigðra lífs- og neysluhátta. Við berum ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan með hollu matarræði, reglulegri hreyfingu og hæfilegri hvíld.

Starfsáætlun

Hvað er framundan í Hagaskóla? Í starfsáætlun finnur þú meðal annars stefnu skólans, skipulag kennslu og ótalmargt fleira. 

Innra mat - skýrsla

Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir innra mati Hagaskóla. Helstu niðurstöður eru settar fram þar sem lögð er áhersla á að fjalla um þætti sem best komu út og þá þætti sem þarfnast umbóta. Unnið er með umbótaþætti áfram í umbótaáætlun.

Innra mat - skýrsla

Forvarnarstefna

Stefna Hagaskóla í forvörnum

Samfélaginu ber skylda til að byggja upp sterka einstaklinga sem finna til öryggis í umhverfi sínu og því er mikilvægt að fræða unglinga þannig að þeir geti lifað í sátt við umhverfið, sjálfa sig og aðra. Mikilvægt er að þeir hljóti þjálfun í samskiptum og tjáningu og læri að
skilja tilfinningar og hegðun sína sem og annarra.

Meirihluti unglinga býr við ágætis aðstæður og líður vel. Með góðu samstarfi og markvissri vinnu er hægt að stækka þann hóp enn frekar. Mikilvægt er að grípa strax inn í líf unglings ef einhverjir þættir þess eru í ólagi og stöðva þannig óæskilega þróun. Hver einstaklingur skiptir miklu máli og það er á ábyrgð allra í samfélaginu að láta sig málið varða.

Hagaskóli fylgir forvarnastefnu Reykjavíkurborgar en sú stefna er byggð á niðurstöðum rannsókna og gefur því möguleika á að bregðast við aðstæðum út frá fyrirliggjandi upplýsingum og reynslu. Forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar má finna í heild sinni á slóðinni:

https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/forvarnastefna_reykjavikur_net.pdf 

Markmið forvarnastefnu:
  • Að byggja upp jákvæða sjálfsmynd unglinga
  • Að styrkja félagsfærni unglinga
  • Að unglingar tileinki sér heilbrigða lífhætti
Leiðir að markmiðum:
  • Fræðsla til foreldra/forráðamanna þar sem lögð er áhersla á m.a. tilfinningatengsl, aðbúnað, hegðun, viðhorf og þroska unglingsáranna.
  • Stuðla að og hvetja til eftirlits og eftirfylgni foreldra/forráðamanna varðandi skólagöngu og heimanám.
  • Foreldrasamstarf verði aukið m.a. með fræðslu tengdri forvörnum, gerð foreldrasamninga, hvatningu til að virða útivistartíma og taka þátt í hverfisvöktum/foreldrarölti.
  • Opin, aðgengileg ráðgjöf og greiður aðgangur að viðeigandi úrræðum fyrir foreldra/forráðamenn og unglinga. Þessu hlutverki gegna m.a. skólastjórnendur, náms-og starfsráðgjafar, lífsleiknikennarar og umsjónarkennarar og hjúkrunarfræðingur.
  • Fræðsla til starfsfólks skóla þar sem lögð er áhersla á viðhorf, samskipti og að taka á ágreiningi.
  • Fræðsla á vegum skólans um afleiðingar tóbaks-, áfengis- og fíkniefnaneyslu.
  • Stuðla að aukinni heilsurækt, geðrækt og jákvæðum lífsstíl meðal unglinga.
  • Hvatt verði til aukinnar áherslu á að fylgja manneldismarkmiðum varðandi mataræði bæði heima og í skólanum. 
  • Hvetja unglinga til að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér, hegðun sinni og gjörðum að ógleymdu umhverfi sínu.

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Hagaskóla

Stefna Hagaskóla er að stuðla að jafnrétti og mannréttindum meðal nemenda og starfsfólks skólans. Hver einstaklingur, nemandi eða starfsmaður, verði metinn að verðleikum og sýni öllum virðingu í samskiptum. Kynbundin mismunun, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er óheimil í hvaða formi sem hún birtist. Stefnt er að því að tryggja hverjum og einum viðfangsefni og menntun við hæfi. Lögð er áhersla á vináttu, virðingu og jafnrétti í skólastarfi og skólasamfélaginu.

Jafnréttisáætlun Hagaskóla byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Skólinn starfar samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og er hún höfð að leiðarljósi við gerð jafnréttisáætlunar skólans ásamt því að hún tekur viðmið af jafnréttislögum.

Skólastjóri ber ábyrgð á jafnréttisáætluninni, að henni sé fylgt og hún sé endurskoðuð reglulega. Í framkvæmdaáætlun kemur fram hvernig henni er viðhaldið og hverjir bera ábyrgð á einstökum þáttum hennar ásamt tímaáætlun.

Í Hagaskóla:

  • er leitast við að hafa sem jafnast hlutfall stúlkna og drengja í náms- og valhópum
  • er leitast við að hafa kynjahlutfall meðal starfsfólks eins jafnt og kostur er
  • er leitast við að hafa kennsluhætti sem fjölbreyttasta
  • er leitast við að vinna markvisst gegn stöðluðum kynímyndum stúlkna og drengja
  • er leitast við að vinna markvisst gegn hvers kyns fordómum þ.á.m. vegna uppruna, þjóðernis, litarháttar eða trúarbragða
  • er einelti og kynbundið ofbeldi, kynbundin áreiti og kynferðisleg áreitni ekki liðin
  • er óheimilt að mismuna nemendum og starfsfólki vegna fötlunar
  • er óheimilt að mismuna nemendum og starfsfólki vegna kyns og/eða kynhneigðar
  • eru kennarar hvattir til að þess að jafnréttis sé gætt við val á námsefni

Nemendur

Kynjasamþætting

Í öllu starfi skólans, stefnumótun og áætlanagerð er lögð áhersla á kynjasamþættingu. Með kynjasamþættingu er átt við að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem taka þátt í stefnumótun í Hagaskóla. Lögð er áhersla á að kynjaskipting í bekkjardeildum sé sem jöfnust og einnig í valhópum þar sem það á við. Í list- og verkgreinum hefur einstaka hópum verið kynskipt. Stundum þykir einnig heppilegt að skipta hópum eftir kyni t.d. á bekkjarfundum, í hópavinnu, í sjálfstyrkingarhópum og þegar verið er að ræða mál sem varða eingöngu annað kynið.

Nám og námsmat

Kennslu- og námsgögn skulu vera þannig að kynjum sé ekki mismunað. Allir nemendur skólans hafa aðgang að náms- og starfsráðgjöf og er þess gætt að fræðsla skuli vera óháð kyni. Stefnt er að því að skoða námslega stöðu nemenda árlega með tilliti til dreifingar einkunna eftir kyni. Í því sambandi er mikilvægt að kennsluhættir og námsefni sé í sífelldri endurskoðun með tilliti til ólíkra þarfa kynjanna.

  • Hvernig: Kennslu- og námsgögn eru skoðuð áður en þau eru tekin til notkunar með tilliti til að mismunun komi ekki þar fram.
  • Ábyrgð: Stjórnendur og teymisstjórar
     

Félagsstarf nemenda

Umsjónarmenn félagsstarfs skulu sjá til þess að kynin taki jafnan þátt í stjórn og mótun starfsins og bæði kynin ávallt hvött til þátttöku í félagsstarfi. Jafnrétti kynjanna skal haft að leiðarljósi við val í ræðu- og spurningalið skólans eða við hvert það tækifæri sem nemendur skólans koma fram fyrir hans hönd.

Einnig skal leggja áherslu á jafna þátttöku í íþrótta- og skákmótum.

  • Hvernig: Umsjónarmenn félagsstarfs hafa umsjón með því að jafna stöðu kynjanna á þeim vettvangi sem nemendur koma saman fyrir hönd skólans.
  • Ábyrgð: Umsjónarmenn félagsstarfs, félagsmiðstöðin Frosti
     

Jafnréttisfræðsla

Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti kynjanna. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi beggja kynja. Skólanum ber að fræða nemendur sína um jafnréttismál. Fræðslunni má skipta í beina og óbeina fræðslu; á beinan hátt þar sem verkefni sem varða kynin eru unnin og á óbeinan hátt þar sem jafnrétti er samþætt inn í allt starf skólans. Jafnréttisfræðsla í skólum hefur lengi verið í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  • Hvernig: Skólinn starfar samkvæmt markmiðum aðalnámskrár. Jafnréttisfræðsla tengist mörgum greinum en kennurum er bent á aðgengilegt námsefni á vefsíðunum
  • sem geta nýst vel í jafnréttisfræðslu. Gerð veri grein fyrir jafnréttisfræðslu í kennsluáætlunum þar sem við á.
  • Ábyrgð: Kennarar

Kynning

Kynning á jafnréttisáætlun á að fara fram að hausti. Kynning fyrir foreldra á kynningarfundum og fyrir nemendur að hausti. Jafnréttisáætlun má finna á heimasíðu skólans og hún er hluti af skólanámskrá. Telji nemandi að jafnrétti sé brotið í Hagaskóla skal hann leita til náms- og starfsráðgjafa eða umsjónarkennara sem í sameiningu finna hverju máli farveg.

Læsisstefna

Lestur er afar mikilvægur þáttur í lífi fólks og er í raun ein mikilvægasta færnin í nútímasamfélagi. Varla líður sá dagur að ekki þurfi að lesa texta, hvort sem um er að ræða fréttir, texta á samfélagsmiðlum eða annað sem tengist daglegu lífi. Þá er ekki síður mikilvægt að geta lesið sér til ánægju og notið góðra bókmennta. Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um hrakandi lesskilning íslenskra ungmenna og rannsóknir hafa sýnt að verulega er þörf á að efla lesskilning á unglingastigi. Menn hafa áhyggjur af því að stór hópur unglinga taki sér vart bók í hönd utan skólans og hafa enga ánægju af að lesa sér til afþreyingar.

Hér að neðan er læsisstefna Hagaskóla. Markmið stefnunnar er að efla læsi nemenda í víðum skilningi í samræmi við áherslur nýrrar aðalnámskrár og nýrrar lestrarstefnu Reykjavíkurborgar. Óumdeilt er að lestur er lykill að öllu námi og því þarf lestrarkennsla og lestrarþjálfun að vera fjölbreytt og markviss. Ritun gegnir einnig sífellt stærra hlutverki í daglegu lífi fólks með tilkomu ýmissa samskiptamiðla og því er mikilvægt að efla lestur og ritun meðal nemenda. Þeim leiðum sem nota má í skólastarfi til að efla læsi þeirra hefur fjölgað og þeir hafa nú aðgang að ýmiss konar tækni til að nota í samskiptum og námi. Því er lögð áhersla á að nemendur læri að nýta sér nýjustu tækni til þess að efla lestur sinn og lesskilning auk þess sem áhersla er lögð á þjálfun lestrar og ritunar í hefðbundnum skilningi. Skýr læsisstefna tryggir einnig vöxt og viðhald þess starfs sem unnið er innan veggja skólans. Mikilvægt er að efla málskilning nemenda okkar með kennslu aðferða sem efla orðaforða og lesskilning. Með eflingu lestrarmenningar er sérstaklega litið til bókasafns skólans en það á að gegna lykilhlutverki í að gera nemendur okkar að lífstíðarlesurum sem eru færir um að tjá sig vel, jafnt í ræðu sem í riti.

Ein meginstoð læsisstefnunnar er sú að allir nemendur fái þjónustu við hæfi og nái eins góðum árangri og þeir hafa forsendur til. Lögð er áhersla á að lestrarnám nemenda verði þeim gott veganesti þegar þeir ljúka skólagöngu sinni í Hagaskóla og búi þá undir nám í framhaldsskóla. Til þess að það megi verða þurfa kennarar að hafa aðgang að upplýsingum um stöðu nemenda og kunnáttu til að bregðast við þörfum þeirra hverju sinni. Því er mikilvægt að allir kennarar beri ábyrgð á læsisnámi nemenda sinna. Læsisstefnan er útfærð fyrir hvern árgang fyrir sig með markmiðum, leiðum og viðmiðum.

Starfsþróun kennara varðandi læsi er í höndum stjórnenda

Ábyrgð og hlutverk

Leggja þarf góðan grunn að samstarfi og hlutverk allra þurfa að vera skýr við gerð, framkvæmd og eftirfylgni stefnunnar.

  • Nemendur bera ábyrgð á að lesa a.m.k. þrisvar sinnum í viku heima í yndislestarbók. Einnig bera þeir ábyrgð á að mæta undirbúnir í kennslustundir.
  • Foreldrar fylgjast með námi barna sinna og bera ábyrgð á að fylgja lestrarnámi barna sinna eftir og kvitta á lestrarmiða.
  • Allir kennarar eru læsiskennarar og þeir bera ábyrgð á að nemendur fái lesefni við hæfi, hvatningu, markvissa þjálfun og að fylgja eftir því sem nemendum er ætlað að gera.
  • Skólastjórnendur bera ábyrgð á framkvæmd læsisstefnunnar.

Matur í grunnskólum

Skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar veturinn 2025-2026 en mikilvægt er fyrir skólann að hafa áfram yfirsýn, halda utan um upplýsingar um ofnæmi og óþol og takmarka matarsóun. Því þarf eins og áður að skrá nemendur í mataráskrift.

Þeir nemendur sem voru skráðir í fyrra verða sjálfkrafa skráðir í áskrift en aðrir þurfa að skrá sig. Breyting á skráningu fer fram á matur.vala.is.

Teikning af Fjólu að borða mat í skólanum

Foreldrasamstarf

Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Í skólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að skólastarfi. Foreldrafélag  er starfrækt í öllum skólum Reykjavíkurborgar. 

Teikning af Fjólu á leið í skólann ásamt fleiri nemendum og foreldrum

Skólaráð

Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Ráðið skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess.

Mat á skólastarfi

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfsins er m.a. að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.

Skólahverfi Hagaskóla

Í Reykjavík eru mörg skólahverfi og barnið þitt hefur forgang í sinn hverfisskóla. Engu að síður eiga allir foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni samkvæmt reglum um skólahverfi, umsókn og innritun. Hér finnur þú upplýsingar um hvaða götur tilheyra skólahverfi Hagaskóla.