Skólinn
Hagaskóli tók til starfa í hluta núverandi húsnæðis 1. október 1958. Skólahverfi Hagaskóla er allur Vesturbærinn, frá flugvelli og Lækjargötu út að Seltjarnarnesi. Auk heimafólks hafa jafnan verið allmargir nemendur utan hverfis í skólanum.
Hagaskóli er unglingaskóli fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk. Hingað koma nemendur úr þremur skólum, Grandaskóla, Melaskóla og Vesturbæjarskóla. Árgangar eru því nokkuð fjölmennir og skólaárið 2024- 2025 verða um 630 nemendur í skólanum. Þessi fjöldi gerir skólanum kleift að bjóða upp á margvíslegt val í námi.
Félagsmiðstöðin Frosti er fyrir nemendur skólans og býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir unglinga.
Stjórnendur í Hagaskóla
Skólastjóri er Ómar Örn Magnússon
Aðstoðarskólastjóri er Sigríður Nanna Heimisdóttir
Deildarstjóri nemendaþjónustu er Áslaug Pálsdóttir
Deildarstjóri upplýsinga og skólaþróunar er Tryggvi Már Gunnarsson
Skrifstofustjóri er Sigurlaug María Hreinsdóttir
Skólastarfið
Starfsáætlun
Hvað er framundan í Hagaskóla? Í starfsáætlun finnur þú meðal annars stefnu skólans fyrir síðasta ár, skipulag kennslu og ótalmargt fleira.
Skólanámskrá
Viltu vita meira um hugmyndafræði og daglegt starf Hagaskóla? Í skólanámskrá finnur þú ítarlegar upplýsingar um hugmyndafræðilegar áherslur og stefnu skólans í námi og starfi.
Skólareglur
Skólareglur Hagaskóla eru sem hér segir:
1. Við berum ábyrgð á eigin hegðun og framkomu
Í Hagaskóla njótum við frelsis til athafna sem ekki skaða okkur sjálf né samferðamenn okkar. Við temjum okkur ábyrgðarfulla hegðun þar sem við rækjum skyldur okkar og temjum okkur sjálfsstjórn.
2. Við sýnum öllum virðingu og virðum okkar mörk og annarra
Samskipti í skólanum skulu byggjast á vináttu, virðingu og jafnrétti. Við sýnum öðrum samkennd og umburðarlyndi og tökum tillit til allra.
3. Við göngum snyrtilega um og berum virðingu fyrir umhverfi okkar
Við neytum matar og drykkjar aðeins í matsal eða á þar til gerðum svæðum. Við göngum frá matarleifum, umbúðum og öðru rusli á viðeigandi hátt. Matur og drykkur er ekki leyfður í kennslustofum.
4. Við mætum stundvíslega í skólann og stundum nám af kappi
Ein meginforsenda árangurs í námi er áhugi og ástundun. Góð ástundun er ávísun á að nemandi nái sínu besta úr skólagöngu sinni. Stundvísi er dyggð sem leiðir til farsældar í námi og starfi.
5. Við lifum heilbrigðu lífi
Hagaskóli er heilsueflandi skóli sem styður nemendur til heilbrigðra lífs- og neysluhátta. Við berum ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan með hollu matarræði, reglulegri hreyfingu og hæfilegri hvíld.
Matur í grunnskólum
Skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar veturinn 2024-2025 en mikilvægt er fyrir skólann að hafa áfram yfirsýn, halda utan um upplýsingar um ofnæmi og óþol og takmarka matarsóun. Því þarf eins og áður að skrá nemendur í mataráskrift.
Þeir nemendur sem voru skráðir í fyrra verða sjálfkrafa skráðir í áskrift en aðrir þurfa að skrá sig. Breyting á skráningu fer fram á matur.vala.is.
Foreldrasamstarf
Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Í skólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að skólastarfi. Foreldrafélag er starfrækt í öllum skólum Reykjavíkurborgar.
Skólaráð
Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Ráðið skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess.
Mat á skólastarfi
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfsins er m.a. að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.
Skoða áfangaskýrslu um innra mat 2024 ásamt umbótaáætlun
Skólahverfi Hagaskóla
Í Reykjavík eru mörg skólahverfi og barnið þitt hefur forgang í sinn hverfisskóla. Engu að síður eiga allir foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni samkvæmt reglum um skólahverfi, umsókn og innritun. Hér finnur þú upplýsingar um hvaða götur tilheyra skólahverfi Hagaskóla.